Erlent

Allt bendir til stjórnarskipta í Albaníu

Þorgils Jónsson skrifar
Stjórnarandstæðingar fögnuðu á götum höfuðborgarinnar Tírana eftir að ljóst þótti í hvað stefndi.
Stjórnarandstæðingar fögnuðu á götum höfuðborgarinnar Tírana eftir að ljóst þótti í hvað stefndi. Mynd/AP
Allt útlit er fyrir stjórnarskipti í Albanínu eftir að stjórnarandstöðuflokkarnir, undir forystu Sósíalistaflokksins, fögnuðu sigri í þingkosningum.

Nú þegar talning atkvæða er á lokasprettinum og 97 prósent atkvæða hafa verið talin, er stjórnarandstaðan með 53 prósent atkvæða, en stjórnarflokkarnir, undir forystu Demókrataflokksins, eru með 36 prósent.

Forsætisráðherrann, Sali Berisha, hefur þó enn ekki viðurkennt ósigur.

Miðað við þessi úrslit ætti bandalag sósíalista að hafa tryggt sér 84 af 140 þingsætum.

Formaður Sósíalistaflokksins, Edi Rama, verður að öllum líkindum næsti forsætisráðherra, en hann hvatti stuðningsmenn sína til þess að vinna að því að Albanía fengi „sinn réttláta sess í fjölskyldu sameinaðrar Evrópu“.

Spilling er landlæg í Albaníu og var litið til þessara kosninga sem prófstein á ásetning Albana til þess að uppfylla skilyrði til inngöngu í Evrópusambandið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×