Erlent

Rudd kosinn leiðtogi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kevin Rudd og Julia Gillard
Kevin Rudd og Julia Gillard Nordicphotos/AFP
Kevin Rudd vann sigur í óvæntu leiðtogakjöri ástralska Verkamannaflokksins, sem Julia Gillard forsætisráðherra efndi til í dag.

Gillard ákvað að efna til leiðtogakjörs eftir að henni barst til eyrna að Rudd myndi reyna að endurheimta leiðtogasætið fyrir þingkosningar, sem haldnar verða í haust.

Rudd tók áskoruninni fegins hendi og tókst að sannfæra flokksfélaga þeirra um að flokksins byði hroðalegt tap í þingkosningunum, ef Gillard yrði áfram við stjórnvölin.

Rudd hlaut 57 atkvæði en Gillard 47.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau tvö etja kappi í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins. Fyrir þremur árum gerði Gillard uppreisn gegn Rudd, sem þá var leiðtogi flokksins og forsætisráðherra Ástralíu. Rudd hafði verið vinsæll forsætisráðherra en var farinn að dala í skoðanakönnunum þegar Gillard lét til skarar skríða.

Árið 2012 var enn efnt til leiðtogakjörs, og vann Gillard þá auðveldlega sigur á ný með 71 atkvæði gegn 31. Í febrúar síðastliðnum bauð Gillard aftur upp á leiðtogakjör vegna langvarandi deilna innan flokksins, en í það sinn hafnaði Rudd boðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×