Erlent

Stærstu bankar heims sektaðir fyrir vaxtasvindl

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bankarnir höfðu samráð um markaðsvexti.
Bankarnir höfðu samráð um markaðsvexti. Mynd/AP
Margir stærstu bankar heims þurfa að greiða samtals 1,7 milljarða evra í sekt til Evrópusambandsins fyrir að hafa hagnast á vaxtasvindli.

Meðal bankanna eru Barclay‘s, Citigroup, Deutsche Bank, JPMorgan, Royal Bank of Scotland og Societé Generale.

Svissneski bankinn UBS slapp þó við sektir vegna þess að hann upplýsti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um svindlið og sýndi samvinnu við rannsókn málsins.

Bankarnir höfðu hagnast mjög á því að hafa ólöglegt samráð um viðmiðunarvexti, sem notaðir eru í viðskiptum um heim allan. Þeir eru sakaðir um að hafa ákveðið vextina eftir því sem þeim eða viðskiptavinum þeirra hentaði best hverju sinni.

„Við viljum senda skýr skilaboð um að við erum staðráðin í að finna og refsa þessum samráðshópum,“ segir Joaquin Almuna, samkeppnisstjóri Evrópusambandsins.

Jürgen Fittchen, framkvæmdastjóri Deutsche Bank, viðurkenndi að samráðið hafi verið alvarlegt brot á siðareglum bankanna. Hann sagði sektina þó ekki valda bönkunum neinu fjárhagstjóni, þar sem þeir hafi þegar tekið frá fé til að greiða sektir af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×