Erlent

"Í lýðræðisríkjum hefur starfsemi leyniþjónustustofnana alltaf verið ómissandi fyrir öryggi borgaranna"

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þýskalandskanslari hefur dregið að tjá sig um njósnahneykslið.
Þýskalandskanslari hefur dregið að tjá sig um njósnahneykslið.
Angela Merkel Þýskalandskanslari kemur Bandaríkjamönnum til varnar í viðtali við þýska vikuritið Die Zeit, og segir njósnir nauðsynlegar og óhjákvæmilegar fyrir öryggi hvers ríkis.

Þetta er í fyrsta sinn sem hún tjáir sig um víðtæka njósnastarfsemi Bandaríkjanna og fleiri lýðræðisríkja, sem nú eru á hvers manns vitorði eftir að Edward Snowden ljóstraði upp um þær.

Hún hefur þó þann fyrirvara að enn eigi eftir að koma í ljós hversu víðtækar njósnir Bandaríkjamanna eru. Ör tækniþróun valdi því að sífellt þurfi að endurmeta jafnvægið milli frelsis einstaklinganna og þarfa ríkisins.

Sjálf ólst Merkel upp í Austur-Þýskalandi, þar sem leynilögreglan STASI fylgdist grannt með hverri hreyfingu borgaranna. Hún vísar því algerlega á bug að njósnir bandarísku Þjóðaröryggisstofnunarinnar séu sambærilegar starfsemi austurþýsku STASI-löggunnar.

„Þetta er tvennt algerlega ólíkt og samanburður af þessu tagi hefur ekkert annað í för með sér en að gera lítið úr þeim skaða sem STASI olli borgurum Austur-Þýskalands. Í lýðræðisríkjum hefur starfsemi leyniþjónustustofnana alltaf verið ómissandi fyrir öryggi borgaranna og verður það einnig til framtíðar. Ríki án leyniþjónustustarfsemi væri of berskjaldað.“

Ýmis Evrópuríki hafa harðlega gagnrýnt víðtækt eftirlitskerfi Bandaríkjanna, sem skráir og geymir ítarlegar upplýsingar um síma- og netsamskipti fólks, ekki aðeins innan heldur einnig utan Bandaríkjanna.

Francois Hollande Frakklandsforseti krafðist þess að Bandaríkin hættu þegar í stað þessu „snuðri“, en ráðamenn í Bandaríkjunum hafa gert lítið úr þessum ásökunum og segja Evrópuríki stunda sambærilegt eftirlit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×