Erlent

Joe Biden segir hreinskilni Kínaforseta áhrifaríka

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Joe Biden í Kína.
Joe Biden í Kína. Mynd/AP
Bandarískir fréttamenn segja að Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hafi komið svolítið beygður út af fundi með Xi Jinping, forseta Kína.

Fundurinn varð töluvert lengri en til stóð og Biden vildi ekki svara neinum spurningum fjölmiðla að honum loknum. Þess í stað tók hann að ræða um samskipti Kína og Bandaríkjanna, sagði þau þurfa að byggja á gagnkvæmu trausti og að bæði ríkin geri ráð fyrir að hinu gangi gott eitt til í samskiptunum.

Hvorki Biden né Xi minntust á deilur Kína við Japan og fleiri nágrannaríki um yfirráð yfir nokkrum eyjum og auðlindum í hafi.

Ríkisfjölmiðlar í Kína hafa hins vegar gagnrýnt Bandaríkin fyrir að taka málstað Japana í þessum deilum og segja Bandaríkjastjórn hafa kosið að líta fram hjá ögrunum Japana, eins og það er orðað í leiðara China Daily, dagblaði kínversku stjórnarinnar, sem gefið er út á ensku.

Í leiðaranum segir að ögranir Japana séu rót deilunnar, en Bandaríkin hafi ranglega ásakað Kína fyrir að hafa einhliða breytt ríkjandi ástandi í Austur-Kínahafi.

Bandaríkin hafa á síðustu vikum, rétt eins og Japan og fleiri ríki við Austur-Kínahafið, gagnrýnt nýlega ákvörðun Kínverja um að stækka lofthelgi sína, þannig að hún nái yfir hinar umdeildu eyjar, en þetta gerðu Kínverjar án samráðs við nágrannaríkin.

Vafalítið er að þessi mál hafi borið á góma á fundi þeirra Bidens og Xis, en Biden sagði að loknum fundinum að hreinskilni Xis hefði haft töluverð áhrif á sig.

„Hreinskilni skapar traust,“ sagði Biden.

Þeir áttu annan fund síðar í gær ásamt ráðgjafarnefndum sínum, og svo snæddu þeir kvöldverð þar sem unnið var að málum er varða samstarf ríkjanna.

Fyrr um daginn vakti athygli þegar Biden vék sér að ungum Kínverjum, sem biðu í röð í bandaríska sendiráðinu í Peking eftir afgreiðslu vegabréfsáritana. Hann notaði tækifærið til að hvetja unga fólkið til að fara eigin leiðir og óhlýðnast yfirvöldum, ef svo ber undir: „Börn í Bandaríkjunum eru verðlaunuð fyrir að draga ríkjandi ástand í efa, ekki refsað fyrir,“ sagði hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×