Erlent

Ísmaðurinn Ötze á nítján afkomendur

Brjánn Jónasson skrifar
Ísmaðurinn Ötze er trúlega frægasta múmía í heimi.
Ísmaðurinn Ötze er trúlega frægasta múmía í heimi. Nordicphotos/AFP
Í það minnsta nítján austurrískir karlmenn sem eru lifandi í dag eru afkomendur fornmanns sem kallaður er Ísmaðurinn Ötze, og var uppi fyrir um 5.300 árum.

Ötze er líklega þekktasta múmía í heimi, en lík hans fannst frosið í ítölsku ölpunum árið 1991. Mennirnir hafa ekki verið upplýstir um þennan merka ættlegg sem þeir tilheyra.

Rannsókn vísindamanna á erfðaefni Ötzi, og samanburður við erfðaefni blóðgjafa í Týrol-héraði í Austurríki leiddi í ljós að afkomendur hans lifa enn þann dag í dag góðu lífi í Týrol, samkvæmt frétt BBC.

Austurrískir karlmenn geta borið saman eigið andlitsfall við það sem vísindamenn telja að gæti verið líklegt útlit þessa fornmanns.Nordicphotos/AFP
Vísindamennirnir leita nú leiða til að víkka út leitina að afkomendum Ötze með því að skoða gagnabanka með erfðaefnum víðar úr Austurríki og nágrannalöndunum.

Austurrískar konur verða áfram að velkjast í vafa um skyldleika sinn við Ísmanninn, þar sem aðrar aðferðir þyrfti til að bera saman erfðaefni þeirra og erfðaefni Ötze.

Ísmaðurinn Ötze er talinn hafa verið skotinn í bakið með ör, og er sárið talið hafa dregið hann til dauða. Vísindamenn eru ekki sammála um hvort hann hafi verið grafinn, eða hvort lík hans hafi fundist þar sem hann féll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×