Erlent

Siðir virtir við matarþvinganir

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Íslamskir trúarhópar um heim allan hafa biðlað til bandarískra stjórnvalda um að virða ramadan-föstuna í Guantánamo.

Alls eru um 45 hungurverkfallsfangar teknir tvisvar sinnum á dag af fangavörðum og þvingaðir til þess að innbyrða næringu í gegnum nefið. Aðferðirnar hafa víða verið gagnrýndar af mannréttindahópum og vakti hinn heimsfrægi rappari Mos Def meðal annars athygli á aðstæðum fanganna með því að gangast undir sömu meðferð í myndbandi.

Ramadan-fastan er mikilvægur liður í trúarhaldi múslima og fasta menn frá sólarupprás til sólseturs.

Forsvarsmenn trúarhópanna hafa bent á að með því að neyða mat ofan í fangana á meðan á ramadan stendur sé verið að bæta meingjörð ofan á aðra niðurlægingu.

Bandarísk stjórnvöld hafa því lofað að neyða fangana aðeins til að nærast að næturlagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×