Erlent

Króatía er komin í Evrópusambandið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Króatar horfa fram á ýmsar breytingar nú þegar aðildin að ESB er orðin að veruleika.
Króatar horfa fram á ýmsar breytingar nú þegar aðildin að ESB er orðin að veruleika. nordicphotos/AFP
Þúsundir manna tóku þátt í hátíðarhöldum víðs vegar um Króatíu í gær til að fagna Evrópusambandsaðild, sem varð að veruleika á miðnætti.

Ivo Jospovic Króatíuforseti segir hátíðarhöldin vera hófleg vegna þess að efnahagsástandið í landinu sé enn mjög erfitt.

„Við þurfum að þróa efnahaginn og hugsa um þau sem eru atvinnulaus núna. Það er hvorki tími né peningar til þess að standa í miklum hátíðarhöldum,“ sagði hann í viðtali við AP-fréttastofuna.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagði aðild Króatíu engu að síður vera sögulega: „Aðild að ESB er engin töfralausn við vandanum,“ sagði hann í yfirlýsingu. „En hún mun hjálpa mörgum við að komast út úr fátækt og nútímavæða efnahagslífið.“

Króatía getur ekki fengið aðstoð úr neyðarsjóðum evruríkjanna, því landið fær ekki aðild að evrusvæðinu fyrr en efnahagsleg skilyrði til þess hafa verið uppfyllt.

Króatískir andstæðingar ESB efndu til mótmælafundar í gærkvöld en stuðningsmenn aðildar segja aðildina hafa verið nauðsynlega. Margir geti nú fengið vinnu handan landamæranna í betur stæðum ESB-ríkjum. Búast megi við að erlend fjárfesting aukist og vonir eru bundnar við að ESB geti hjálpað til við að halda spillingu í skefjum innan stjórnkerfisins.

Aðildarríki ESB eru nú 28 talsins og íbúum þeirra hefur fjölgað úr 502,4 milljónum í 506,8 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×