Erlent

Milljónum gert að flytja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Á annað hundrað Tíbetar hafa kveikt í sér á síðustu árum til að mótmæla ofríki Kínastjórnar.
Nordicphotos/AFP
Á annað hundrað Tíbetar hafa kveikt í sér á síðustu árum til að mótmæla ofríki Kínastjórnar. Nordicphotos/AFP
Kína Kínversk stjórnvöld hafa látið þriðjung allra Tíbeta, um tvær milljónir manna, flytja í nýtt eða endurbætt húsnæði á árunum 2006 til 2012. Auk þess hafa hundruð þúsunda hirðingja á austanverðri hásléttunni þurft að flytjast í varanlega búsetu.

Fyrir lok næsta árs þurfa meira en milljón manns í viðbót að flytja í ný byggðarlög, sem skipulögð hafa verið í tengslum við skipulagsátak kínverskra stjórnvalda.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch skýra frá þessu í nýrri skýrslu, þar sem kínversk stjórnvöld eru hvatt til þess að stöðva þegar í strax alla fólksflutninga þangað til óháð sérfræðinganefnd hefur farið yfir bæði stefnu og framkvæmd þessarar stórfelldu samfélagstilraunar.

Kínversk stjórnvöld segja að herferðin, sem nefnist „Byggjum nýja sósíalíska byggð“, snúist um að útvega Tíbetum betra húsnæði og bæta mannlífið. Í skýrslunni er hins vegar fullyrt að lítið tillit hafi verið tekið til réttinda íbúanna.

Kínversk stjórnvöld fullyrða enn fremur að allir þeir sem hafa flutt hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja og tekið sé fullt tillit til óska tíbetskra bænda og hirðingja.

Í skýrslunni, sem er byggð meðal annars á fjölmörgum viðtölum og frásögnum, kemur hins vegar fram að Tíbetar hafi í raun ekki haft mikil áhrif á þessi áform stjórnvalda og framkvæmd þeirra.

Þá hafa samtökin grandskoðað gervihnattaljósmyndir af svæðunum, þar sem hægt er að rekja breytingarnar sem orðið hafa frá eldri byggðum yfir í nýbyggingasvæði og heilu þorpin og bæina sem reist hafa verið á síðustu árum.

Tíbetar hafa ekki margar leiðir til að mótmæla framkvæmdum stjórnvalda eða öðrum mannréttindabrotum sem þeir hafa verið beittir. Síðustu misserin hafa meira en hundrað Tíbetar gripið til þess ráðs að kveikja í sjálfum sér til að vekja athygli á ofríki kínverskra stjórnvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×