Erlent

Samkynhneigð pör fá sömu réttindi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Samkynhneigðir og stuðningsmenn þeirra fagna innilega fyrir framan byggingu Hæstaréttar Bandaríkjanna í Washington.nordicphotos/AFP
Samkynhneigðir og stuðningsmenn þeirra fagna innilega fyrir framan byggingu Hæstaréttar Bandaríkjanna í Washington.nordicphotos/AFP Mynd/Nordicphoto/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnaði í gær niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem nam úr gildi lög frá 1996 er fela í sér mismunum gagnvart samkynhneigðum pörum sem gengið hafa í hjónaband.

Hann sagðist þegar hafa falið Eric Holden, dómsmálaráðherra ríkisstjórnar sinnar, að sjá til þess að lög einstakra ríkja Bandaríkjanna gangi ekki gegn þessari niðurstöðu dómstólsins.

„Megináhrif laganna felast í því að sum þeirra hjónabanda sem ríkisvald hefur lagt blessun sína yfir eru skilgreind sérstaklega og látin hafa minna gildi en önnur,“ segir í úrskurðinum, sem fimm af níu dómurum Hæstaréttar stóðu að.

Það var Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti, sem árið 1996 undirritaði „Lög um vernd hjónabandsins“, sem kváðu á um að einungis gagnkynhneigð hjón gætu notið þeirra félagslegu réttinda sem veitt eru hjónum í alríkislögum.

Clinton hefur síðar skipt um skoðun og studdi nú, ásamt flokksbróður sínum, Barack Obama forseta, eindregið afnám laganna.

Í hinu málinu, er einnig varðar hjónabönd samkynhneigðra, forðaðist dómstóllinn að taka afstöðu til þess hvort bann við hjónaböndum samkynhneigðra, sem íbúar í Kaliforníu samþykktu í atkvæðagreiðslu árið 2008, stæðist stjórnarskrána. Hins vegar lét Hæstiréttur úrskurð undirréttar í Kaliforníu í málinu standa óhreyfðan, en undirrétturinn hafði ógilt bannið.

Alls hafa tólf af ríkjum Bandaríkjanna ásamt höfuðborginni Washington leitt hjónabönd samkynhneigðra í lög. Að auki gengu þúsundir samkynhneigðra para í Kaliforníu í hjónaband þann tiltölulega stutta tíma sem það var leyfilegt þar.

Búist er við því að Kaliforníubúar muni strax í næsta mánuði reyna að fá því framgengt að hjónabönd samkynhneigðra verði lögleidd þar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×