Erlent

Valdaafsal í Katar, en litlar breytingar

Þorgils Jónsson skrifar
Sjeik Tamim bin Hamad Al Thani tók við sem emír í Katar, eftir að faðir hans afsalaði sér völdum í dag.
Sjeik Tamim bin Hamad Al Thani tók við sem emír í Katar, eftir að faðir hans afsalaði sér völdum í dag. NordicPhotos/AFP
Emírinn í Katar afsalaði sér formlega völdum til sonar síns, hins 33ja ára gamla Sjeik Tamim bin Hamad Al Thani í dag.

Ekki er algengt að þjóðhöfðingjar við Persaflóa stígi til hliðar ótilneyddir, en talið er að Hamad bin Khalifa Al Thani, sem er 61 árs, sé við slæma heilsu og það útskýri þessa ákvörðun, án þess að nokkuð hafi verið gefið út opinberlega. Fráfarandi emír komst til valda árið 1995 eftir að hann velti föður sínum úr sessi.

Þessi skipti eru þó í góðri sátt, enda stóðu þeir feðgar hlið við hlið eftir afsalið. Er auk þess talið að fráfarandi emír muni hafa mikið um stjórn landsins að segja bak við tjöldin, og arftakinn muni fylgja í flestu þeirri framtíðarsýn sem mótuð hefur verið síðustu ár.

Sjeik Tamim bin Hamad tekur við því stjórnartaumunum í þessu smáríki,sem hefur reynt að gera sig gildandi á heimssviðinu síðustu ár, í krafti gríðarlegra auðæfa. Talið er að fjárfestingasjóður ríkisins telju im 100 milljarða Bandaríkjadala.

Meðal annars tók Katar þátt í málamiðlunum í Súdan á sínum tíma og hefur talað fyrir áframhaldi á friðarviðræðum í Palestínu.



Katar hefur aukinheldur stutt við bakið á uppreisnaröflum í Líbíu og Sýrlandi auk þess sem þeir eru stuðningsmenn Múslímska bræðralagsins í Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×