Erlent

Yfir 600 látnir í aurskriðum og flóðum

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Herinn hefur stjórnað öllum björgunaraðgerðum á hamfarasvæðinu síðustu daga. Aðstandendur hafa gagnrýnt seinagang en þyrlur sem hafa flutt fólk taka bara nokkra farþega í einu.
Herinn hefur stjórnað öllum björgunaraðgerðum á hamfarasvæðinu síðustu daga. Aðstandendur hafa gagnrýnt seinagang en þyrlur sem hafa flutt fólk taka bara nokkra farþega í einu. Fréttablaðið/AP
Sex hundruð manns að minnsta kosti hafa látist vegna flóða og aurskriða í norðurhluta Indlands undanfarna daga. Yfirvöld í Indlandi hafa sagt að líklega séu mun fleiri látnir, jafnvel nokkur þúsund manns. 5000 manns var saknað þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Indverski herinn stjórnar umfangsmiklum björgunaraðgerðum á svæðinu en hafði í gærkvöldi ekki náð til allra þorpa sem urðu illa úti í hamförunum. Flugherinn hefur flogið yfir rúmlega hundrað þorp og bæi og hermenn hafa því komist í þangað í fallhlífum. Einnig hefur herinn komið mat og lyfjum í þorpin úr lofti. Innanríkisráðherra landsins, Sushilkumar Shinde, segir að 33 þúsund manns hafi verið bjargað en enn séu um 50 þúsund manns strand. Mikill fjöldi fólksins sem er fast eru hindúar í pílagrímsferðum.

Aðstandendur þeirra sem er saknað hafa margir hverjir gagnrýnt seinagang stjórnvalda í björgunaraðgerðunum, en flestra hefur verið saknað frá því síðastliðinn sunnudag. Hundruð mótmæltu seinaganginum í gær og gagnrýndu að litlar þyrlur flyttu fólk af verstu svæðunum.

Landbúnaðarráðherra landsins hefur farið um svæðið og segir hamfarirnar þær verstu á þessari öld. „Það mun taka okkur að minnsta kosti fimm ár að jafna okkur á þessum mikla skaða sem orðið hefur á öllum innviðum á Kedarnath-svæðinu, sem varð verst úti,“ sagði Harak Singh Rawat landbúnaðarráðherra. Hann sagðist vera í áfalli eftir að hafa séð hversu umfangsmikil eyðileggingin er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×