Innlent

Er hlynnt vegi um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
„Ég er hlynnt því að leggja veginn hér,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra þegar hún skoðaði sig um í Teigsskógi síðdegis í gær á leið sinni til fundar við Vestfirðinga um samgöngumál.

„Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. En ég ætla ekki að taka endanlega ákvörðun. Það er annarra að sjá til hvernig umhverfismatið verður. Svo sjáum við til hvernig framhaldið verður með það,“ sagði Hanna Birna jafnframt.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá frétt Stöðvar 2 frá því fyrr í vikunni þar sem Hanna Birna skýrði frá því að hún hefði heimilað vegamálastjóra að setja vegagerð um Teigsskóg í nýtt umhverfismat. Þar með sneri hún við tveggja ára gamalli ákvörðun forvera síns, Ögmundar Jónassonar, sem taldi slíka leið ófæra vegna fyrirsjáanlegra kærumála. 

„Þetta er auðvitað fallegt svæði, eins og mörg önnur svæði á Íslandi, því verður ekki neitað. En mér finnst mikilvægt að láta á þetta reyna. Ég skil ekki hvers vegna það má ekki fara þessa leið í umhverfismat, eins og aðrar. Þetta er sú leið sem íbúar á svæðinu telja langbesta. Þetta er öruggasta leiðin, hún er hagkvæmust og hún er styst.“

Ráðherrann og vegamálastjóri verða meðal frummælenda á málþingi sem Fjórðungssamband Vestfirðinga stendur fyrir í íþróttahúsinu á Tálknafirði milli klukkan 12.30 og 15 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×