Erlent

Segja sýknudóm yfir Knox gallaðan

Þorgils Jónsson skrifar
Amanda Knox var sakfelld fyrir morð á Ítalíu árið 2009, en svo sýknuð árið 2011. Nú hefur hæstiréttur snúið þeim dómi og fyrirskipað að málið skuli tekið upp á ný.
Amanda Knox var sakfelld fyrir morð á Ítalíu árið 2009, en svo sýknuð árið 2011. Nú hefur hæstiréttur snúið þeim dómi og fyrirskipað að málið skuli tekið upp á ný.
 Hæstiréttur Ítalíu deildi í gær harkalega á vinnubrögð áfrýjunardómstóls sem sýknaði hina bandarísku Amöndu Knox af morðákæru. Leggur rétturinn til að annar dómstóll verði skipaður til að taka málið upp á ný.

Mál Knox er eitt hið umtalaðasta og umdeildasta á Ítalíu síðustu ár, en hún og kærasti hennar voru ákærð, og síðan sakfelld fyrir að myrða breska stúlku, Meredith Kerchner að nafni, árið 2007. Kerchner og Knox voru sambýlingar.

Áfrýjunarrétturinn sagði sakfellinguna gallaða, meðal annars þar sem morðvopnið fannst aldrei og ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á ástæðu fyrir morðinu.

Þegar sá dómur féll árið 2011 var Knox sleppt úr haldi og hélt aftur til Bandaríkjanna.

Nú hefur hæstiréttur hins vegar sakað áfrýjunarrétinn um að líta framhjá margskonar sönnunargögnum, meðal annars vitnisburði Knox sjálfrar um að hún hafi verið í húsinu þegar morðið var framið, og að hún hafi bendlað mann nokkurn við morðið, sem síðar reyndist saklaus.

Nýr áfrýjunarréttur mun nú fara aftur yfir öll gögn í málinu, en óvíst er hvaða áhrif möguleg sakfelling þar mun hafa. Ítölsk lög geta ekki þvingað Knox til að snúa aftur til landsins og lögmenn hennar segja að ekki standi til að hún snúi aftur af sjálfsdáðum.



Þó munu þeir verja hennar málstað í málarekstrinum, sem fyrr, og Knox sjálf, sem stundar nú háskólanám í Seattle, segist vonsvikin, en viss um að hún verði sýknuð á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×