Erlent

900 þúsund nemendur heima

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Um níu hundruð nemendur fá ekki kennslu frá og með deginum í dag í Danmörku sökum verkbanns kennara.
Um níu hundruð nemendur fá ekki kennslu frá og með deginum í dag í Danmörku sökum verkbanns kennara.
Um níu hundruð þúsund nemendur í Danmörku snúa ekki aftur í skólann í dag eftir páskafrí ef verkbann kennara í landinu tekur gildi. Bannið yrði það stærsta í sögu Danmerkur en um sextíu þúsund kennarar fá ekki að sinna starfi sínu frá og með deginum í dag.

Það eru dönsk stjórnvöld sem standa fyrir banninu sem kennarar eru mjög ósáttir við og saka stjórnvöld um óbilgirni í sinn garð. Undanfari bannsins er harðar deilur milli stjórnvalda og kennara, meðal annars um vinnutímann. Vegna nýrra tillagna um endurbætur á kennslustarfi er þess krafist að kennarar eyði meiri tíma innan veggja skólans án þess að fá sérstaklega greitt fyrir. Stjórnvöld boðuðu bannið í lok febrúar en það er ótímabundið.

Danskir vinnustaðir hafa margir hverjir gert ráðstafanir varðandi barnapössun fyrir starfsmenn sína en það er ljóst að fjölmargir þurfa að vera heima. Kennarar segjast ekki ætla að taka banninu þegjandi og hljóðalaust og boða til mótmæla víðs vegar um landið á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×