Erlent

Útgáfa lögreglunnar reyndist þokukennd

Oscar Pistorius Í dag tekur dómari afstöðu til þess hvort Pistorius verði látinn laus gegn tryggingu. nordicphotos/AFP
Oscar Pistorius Í dag tekur dómari afstöðu til þess hvort Pistorius verði látinn laus gegn tryggingu. nordicphotos/AFP
Rannsóknarlögreglumaðurinn Hilton Botha viðurkenndi að ekkert hefði fundist við rannsókn málsins sem afsannað gæti frásögn Oscars Pistorius af atburðum næturinnar 14. febrúar, þegar hann skaut kærustu sína Reevu Steenkamp.

Botha átti í nokkrum erfiðleikum með að svara spurningum verjenda Oscars Pistorius í réttarsal í gær. Saksóknari í málinu segir engu að síður ljóst að Pistorius hafi myrt kærustu sína að yfirlögðu ráði.

Botha viðurkenndi meðal annars að vitni, sem sagðist hafa heyrt hávaðarifrildi inni á heimili Pistorius, hafi verið í 600 metra fjarlægð frá húsinu. Nokkru síðar sagði hann að fjarlægðin hefði verið 300 metrar, sem engu að síður er nokkuð langt til að geta fullyrt að hávaðinn hafi komið nákvæmlega úr þessu tiltekna húsi.

Þá viðurkenndi Botha ýmis mistök lögreglu á vettvangi, þar á meðal að verjendur hefðu fundið notað skothylki í salernisskál sem rannsóknarlögreglunni sást yfir.

Botha hafði einnig fullyrt að ólöglegir sterar og nálar hefðu fundist á heimili Pistorius, en átti engin andmæli þegar verjendur fullyrtu að þetta hefði verið löglegt jurtalyf.

Pistorius segist hafa staðið í þeirri trú að hann væri að skjóta á innbrotsþjóf inni á salerni íbúðarinnar.

Saksóknari segir að það sé ekki nokkur möguleiki á að Pistorius hafi haldið að Steenkamp væri sofandi í rúmi þeirra. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×