Erlent

Sjá ekki eftir mótmælunum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Maria Alekhina er höfð í einangrun vegna hótana annarra fanga. fréttablaðið/AP
Maria Alekhina er höfð í einangrun vegna hótana annarra fanga. fréttablaðið/AP

Þær Nadezhda Tolokonnikova og Anna Alekhina, meðlimir í rússnesku pönkhljómsveitinni Pussy Riot, segjast ekki láta erfiðar aðstæður í vinnubúðunum hafa mikil áhrif á sig.

„Ég er meinlætamanneskja og læt mig litlu varða hvaða aðstæður ég bý við," segir Tolokonnikova. „Ég mun lifa þetta af. Það kemur ekkert fyrir mig," segir Alekhina.

Alekhina er þó höfð í einangrun vegna hættu á því að hún verði fyrir aðkasti annarra fanga. Hana grunar að fangelsisyfirvöldin hafi hvatt aðra fanga til að hóta henni öllu illu. Hún segist þó kunna betur við sig í einangruninni: Þar sé þó friður til að lesa.

Tolokonnikova og Alekhina fengu báðar tveggja ára fangelsisdóm síðastliðið haust fyrir að hafa efnt til mótmæla gegn Vladimir Pútín forseta í helstu kirkju Moskvuborgar snemma á síðasta ári.

Þær segjast ekki sjá eftir neinu, þótt ekki reikni þær með neinni miskunn frá stjórnvöldum.

Tolokonnikova segir það alrangt, sem rússneskir fjölmiðlar hömruðu á, að mótmælin hafi verið hugsuð sem guðlast: „Þetta var kaldhæðin, glaðvær og frökk athöfn, pólitískt neyðaróp, ef svo má að orði komast," segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×