Íslenski boltinn

Leikmenn fá greitt eins og sjómenn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Milan Stefán Jankovic er orðinn aðalþjálfari karlaliðs Grindavíkur í þriðja skiptið á ferlinum.
Milan Stefán Jankovic er orðinn aðalþjálfari karlaliðs Grindavíkur í þriðja skiptið á ferlinum. Mynd/Daníel
Grindvíkingar tóku þá ákvörðun á síðasta ári að ráða Milan Stefán Jankovic sem þjálfara karlaliðs félagsins. Félagið gat þó ekki gengið frá ráðningunni fyrr en Guðjón Þórðarson hafði formlega lokið störfum sem þjálfari. Það gerðist nú um áramótin.

„Janko var með samning við félagið til 2015 og við breyttum bara titlinum. Hann fær líka litla launahækkun með aukinni ábyrgð," segir Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Jankovic er búinn að vera á Íslandi í tæpt 21 ár og þar af hefur hann verið í Grindavík í nítján. Það er einnig mögnuð staðreynd að hann er að taka við Grindavíkurliðinu í þriðja sinn.

„Hann hætti að spila 1999 og tók þá við liðinu hjá okkur og var með það til 2001. Hann fór í tvö ár til Keflavíkur en kom svo aftur sem aðstoðarþjálfari. Hann tekur svo við liðinu af Sigurði Jónssyni á sínum tíma. Þetta verður því í þriðja sinn sem hann verður aðalþjálfari. Það er líklega einsdæmi, sem og að hann sé búinn að starfa fyrir okkur á einn eða annan hátt í tæp 19 ár."

Allt í góðu milli okkar Guðjóns

Það tók sinn tíma að ganga frá málum varðandi Guðjón Þórðarson en það mál endaði í höndum lögfræðinga. Jónas segir að því máli sé nú lokið.

„Af okkar hálfu er þessu lokið. Samningur hans rann út um áramót. Það voru engin illindi á milli okkar þó svo að lögfræðingar væru í spilinu. Við höfum lokið okkar skyldum gagnvart þeim samningi."

Grindvíkingar verða í 1. deildinni næsta sumar og þurfa að haga seglum eftir vindi. Þar á meðal þurfa þeir að endurskoða fjárhaginn og það hafa þeir gert. Allir leikmenn liðsins hafa tekið á sig 25 prósenta launalækkun og svo fá leikmenn greitt í níu mánuði í stað tólf núna.

„Þetta byrjaði núna 1. janúar og menn fá greitt út september. Þetta er jákvæð þróun finnst mér," segir Jónas, sem hefur einnig tekið upp nýtt launakerfi sem hann hefur lengi talað fyrir.

„Þetta er það sem við köllum hlutaskiptakerfi sjómanna. Ef menn ná árangri þá ná þeir verulegri bætingu á sínum kjörum. Byrjunarliðsmenn fá 100 prósent greitt, varamenn sem koma inn á af bekknum 50 prósent en þeir sem sitja á bekknum fá 25 prósent. Ég hef talað fyrir þessu lengi og ég hef fengið jákvæð viðbrögð víða. Meðal annars fengið símtal úr Vesturbænum þar sem menn voru að spyrja mig út í þetta."

Jónas segir að fjármál knattspyrnudeilda almennt hafi verið í ólestri lengi og að hans mati er þetta eina raunhæfa kerfið í rekstur á knattspyrnudeild.

„Þetta er ekki flókið. Það sem kemur inn fer út til leikmanna. Þetta var orðið glórulaust. Það er fjöldi félaga í miklum vanda þar sem þau geta ekki staðið við sínar skuldbindingar. Þegar menn skrifa undir samning hér þá geta menn treyst því að staðið sé við samninginn. Það hefur alltaf verið þannig í Grindavík og við erum stoltir af okkar góða orðspori."

Grindvíkingar ætla sér stóra hluti á næstu árum. Þeir hafa slegið í klárinn í yngri flokka starfinu, eru búnir að styrkja meistaraflokk kvenna mikið og ætla sér ekki að dvelja lengi í 1. deild með meistaraflokk karla.

„Við viljum byggja sterkt félag í grunninn. Markmiðið er að vera á meðal þeirra bestu í karla- og kvennaflokki en á okkar forsendum. Stefnan er að koma karlaliðinu beint upp næsta sumar. Við erum ekki búnir að kaupa leikmenn en fimm leikmenn sem spiluðu lítið síðasta sumar vegna meiðsla eru komnir aftur. Það er því eins og við höfum fengið fimm nýja leikmenn og það eru allt sterkir strákar sem styrkja okkur mikið," segir Jónas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×