Erlent

Þúsundir sýna Hugo Chavez stuðning

Í stað innsetningarathafnar var efnt til útisamkomu í Caracas.
Í stað innsetningarathafnar var efnt til útisamkomu í Caracas. nordicphotos/AFP
Þúsundir stuðningsmanna Hugos Chavez, forseta Venesúela, komu saman fyrir utan forsetahöllina í Caracas í gær til að sýna stuðning sinn við forsetann.

Chavez liggur á sjúkrahúsi á Kúbu, nýlega kominn úr enn einni krabbameinsaðgerðinni, og hefur ekki haft heilsu til að tala opinberlega vikum saman.

Hann var of veikur til þess að taka formlega við forsetaembættinu í gær þegar nýtt kjörtímabil hans hófst. Þjóðþing landsins samþykkti að fresta innsetningarathöfninni og hæstiréttur staðfesti að sú frestun bryti ekki í bága við stjórnarskrá landsins. Stjórnarandstæðingar hafa þó ekki fallist á þann úrskurð og segja að forseti þingsins hafi átt að taka við völdum forseta og boða strax til kosninga.

Chavez hefur yfirgnæfandi stuðning á þingi og dómarar við hæstarétt eru sagðir honum hliðhollir. Í stað innsetningarathafnar boðaði ríkisstjórnin í gær til útisamkomu fyrir utan forsetahöllina, þar sem fólk gæti komið til að sýna samstöðu með Chavez.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×