Erlent

Fær 112 daga styttingu á fangavist

Bradley Manning sést hér fluttur úr dómhúsinu í Fort Meade í fyrrasumar.
Bradley Manning sést hér fluttur úr dómhúsinu í Fort Meade í fyrrasumar. Fréttablaðið/AP
Möguleg refsing sem bandaríski hermaðurinn Bradley Manning kann að verða dæmdur til hefur verið milduð samkvæmt úrskurði dómara við herdómstólinn í Fort Meade í Maryland í Bandaríkjunum.

Denise Lind, dómari í málinu, kvað upp úrskurð sinn í fyrirtöku sem fram fór á þriðjudag, en Manning er sakaður um að hafa lekið miklu magni leyniskjala til uppljóstrunarvefsins WikiLeaks.

Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að Manning hefði orðið fyrir ólöglegu harðræði í níu mánaða fangavist sinni í fangabúðum Bandaríkjahers í Quantico í Virginíu. Manning fær því alls 112 daga styttingu á hvaða fangelsisdómi sem upp kann að verða kveðinn yfir honum.

Manning var haldið í gluggalausum klefa í 23 tíma á sólarhring, stundum án klæða. Yfirmenn í fangelsinu báru við að það væri til þess að koma í veg fyrir að hann ynni sjáfum sér eða öðrum mein.

Ákæra á hendur Manning er í 22 liðum. Meðal ákæruliða er aðstoð við óvini Bandaríkjanna, en við því getur að hámarki legið lífstíðarfangelsisdómur.

Aðalmeðferð í málinu hefst 6. mars næstkomandi. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×