Erlent

Telja að uppreisna sé að vænta í Evrópu

Gjaldþrot vofir yfir Rauða krossinum þar í landi. Nordicphotos/AFP
Gjaldþrot vofir yfir Rauða krossinum þar í landi. Nordicphotos/AFP
Milljónir Evrópubúa, sem bjuggu við velmegun fyrir ekki svo löngu, eiga nú í erfiðleikum með að afla sér matar. Það er mat Alþjóða Rauða krossins að Evrópa þurfi þess vegna að búa sig undir uppreisnir, eins og þær sem skekið hafa Norður-Afríku.

Framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins, Yves Daccord, segir í viðtali við Politiken að í mörgum Evrópulöndum verði samtökin nú að beina sjónum sínum í meira mæli að fátækum í eigin landi, heldur en að hjálparstarfi utan Evrópu.

Dæmi um raunverulega kreppu er yfirvofandi gjaldþrot Rauða krossins í Grikklandi. Á Spáni var öllu söfnunarfé í fyrra varið til að hjálpa íbúum landsins. Samkvæmt frétt Politiken leituðu um tvær milljónir aðstoðar hjá Rauða krossinum á Spáni, af þeim eru 300 þúsund sögð sárafátæk.

Svenska Dagbladet hefur það eftir framkvæmdastjóra Rauða krossins í Svíþjóð, Ulriku Årehed Kågström, að 12 Rauða kross-samtök innan Evrópusambandsins séu með matarúthlutanir í sínum löndum. Nýjar tölur frá Evrópusambandinu sýni að næstum 120 milljónir íbúa í aðildarríkjum þess lifa undir fátæktarmörkum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lítur ástandið svo alvarlegum augum að hún hefur lagt til að jafngildi um 400 milljarða íslenskra króna verði settir í nýjan sjóð til hjálpar þeim sem verst eru staddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×