Erlent

BDSM-kynlíf sagt bæta geðheilsuna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
samsett mynd/getty

Fólk sem stundar BDSM-kynlíf þjáist síður af taugaveiklun, er opnara og öruggara í ástarsamböndum. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem birt var í læknartitinu Journal of Sexual Medicine.

902 einstaklingar sem stunduðu BDSM-kynlíf (bindi-, drottnunar-, sadómasókistaleiki og munalosta) voru bornir saman við 434 sem stunduðu „venjulegt“ kynlíf, og voru þátttakendur látnir fylla út spurningalista varðandi persónuleika þeirra, heilsu og ýmislegt fleira. Þátttakendum var ekki gert grein fyrir tilgangi rannsóknarinnar fyrirfram.

Samkvæmt niðurstöðunum farnast BDSM-iðkendum betur á ýmsum andlegum sviðum. Þeir eru í betra jafnvægi, eiga auðveldara með að takast á við höfnun og opnari fyrir nýjungum. Þá voru niðurstöður hinna drottnunargjörnu áberandi betri en hinna undirgefnu.

Andreas Wismeijer, yfirmaður rannsóknarinnar sem gerð var við Nyenrode-viðskiptaháskólann í Hollandi, segir mögulega skýringu vera þá að iðkendur slíks kynlífs hafi lært að lifa með kynhegðun sem er er álitin öðruvísi, en mörg þeirra blæta sem teljast til BDSM-kynlífs eru flokkuð með geðsjúkdómum.

Vonast BDSM-iðkendur til þess að rannsóknin verði til þess að eyða fordómum í þeirra garð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×