Erlent

Fjórir handteknir í tengslum við hrun verksmiðjubyggingar í Bangladess

Mynd/AP
Tveir verkfræðingar sem komu að byggingu átta hæða verksmiðjubyggingar í borginni Dakka í Bangladess voru handteknir á heimilum sínum í morgun. Tveir eigendur byggingarinnar hafa gefið sig fram við lögreglu.

Hinir tveir síðarnefndu eru sakaðir um að hafa skipað fjölmörgum starfsmönnum að halda áfram vinnu rétt áður en byggingin hrundi, en þá hafði lögreglan skipað fólkinu að yfirgefa svæðið þar sem hún sá í hvað stefndi. Lögreglan leitar nú þriðja eigandans en hún hefur tekið nokkra ættingja hans haldi í þeirri von um að hann gefi sig fram.

Þrjú þúsund manns voru í byggingunni þegar ósköpin dundu yfir á miðvikudag. Að minnsta kosti 386 hafa fundist látnir en um níuhundruð er enn saknað. Tuttugu og fjórum var bjargað í morgun og er vitað um nokkra sem eru á lífi í rústunum og reyna björgunarmenn nú að koma súrefni og vatni til þeirra.

Þúsundir íbúa Bangladess hafa mótmælt bágbornu ástandi bygginga víða um land og hefur slegið í brýnu milli mótmælenda og lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×