Erlent

Tugmilljónir á flótta um allan heim

Þorgils Jónsson skrifar
Þessi unga stúlka flúði, ásamt fjölskyldu sinni, átökin í Sýrlandi og hafast þau nú við í flóttamannabúðum í Líbanon.
Þessi unga stúlka flúði, ásamt fjölskyldu sinni, átökin í Sýrlandi og hafast þau nú við í flóttamannabúðum í Líbanon. NordicPhotos/AFP
Rúmlega 45 milljónir einstaklinga voru á vergangi í lok síðasta árs eftir að hafa hrakist burt frá heimilum sínum vegna stríðsátaka og annarra áfalla. Þetta kemur fram í árlegri úttekt Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) sem kom út í gær.

Skýrslan byggir á gögnum frá ríkisstjórnum, frjálsum félagasamtökum og UNCHR en þar segir að í lok árs 2012 hafi 45,1 milljón manns verið á flótta í heiminum, samanborið við 42,5 milljónir í árslok 2011. Þar af voru 15,4 milljónir flóttamenn, 937.000 hælisleitendur og 28,8 milljónir á vergangi innan landamæra eigin heimalands.





Stríðsátök eru meginástæða þess að fólk hrekst frá heimilum sínum en rúmlega helmingur flóttafólks kemur frá fimm löndum þar sem stríð hafa geisað, Afganistan, Sómalíu, Írak, Sýrlandi og Súdan. Auk þess hefur orðið vart við aukinn fjölda frá öðrum stríðshrjáðum löndum, til dæmis Malí og Kongó.

Þessi tölfræði vekur ugg, sérstaklega ef litið er til síðasta árs, þar sem 7,6 milljónir manna flúðu heimkynni sín, þar af voru 1,1 milljón flóttamenn í öðru landi og 6,5 milljónir voru á flótta innan eigin heimalands. Þetta jafngildir því að einn einstaklingur flýi heimili sitt fjórðu hverja sekúndu.

„Þetta eru verulega ógnvekjandi tölur,“ segir Antonio Guterres, æðsti yfirmaður UNCHR. „Þær endurspegla gríðarlega þjáningu fólks og þá erfiðleika sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir og leysa stríðsátök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×