Erlent

Tólf ára ekki spurð um fararleyfi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Flugfélögum ber ekki skylda til að kanna hvort 12 ára börn og eldri megi ferðast ein.
Flugfélögum ber ekki skylda til að kanna hvort 12 ára börn og eldri megi ferðast ein. fréttablaðið/valli
Flugfélögum ber engin skylda til að kanna hvort börn á aldrinum 12 til 18 ára hafi leyfi forráðamanns til að ferðast ein. Þessi svör fékk norsk móðir hjá Icelandair, SAS og Norwegian. Sautján ára sonur hennar strauk að heiman og enginn vissi hvar hann var fyrr en hann birtist allt í einu á Íslandi, að því er kemur fram í frétt á vef Verdens Gang.

Pilturinn hafði keypt sér ferð til Íslands aðra leiðina. Hann hélt frá Rogaland til Gardermoen flugvallar við Ósló á sunnudagskvöld og hélt til um nóttina á flugvellinum. Á mánudagsmorgun fór hann um borð í flugvél til Íslands með farmiðann sem hann hafði keypt á netinu með Visa debetkortinu sínu. Stráksi hafði ákveðið að heimsækja vin sinn á Íslandi. Fjölskyldan á ættingja hér á landi og með aðstoð þeirra fannst pilturinn.

Móðirin kveðst ekki skilja hvers vegna ekki sé kannað hvort barn undir 18 ára aldri hafi leyfi til að ferðast aleitt.

„Aldurstakmarkið vegna kaupa á tóbaki, bjór og víni er 18 ára og 20 ára vegna kaupa á sterku áfengi. En 12 ára barn getur keypt sér flugmiða og farið úr landi aleitt."

Hjá Norwegian fékk hún þau svör að leiki vafi á að barnið sé yngra en 12 ára sé það beðið um að staðfesta að það hafi leyfi til að ferðast án fylgdar.

Haft er eftir upplýsingastjóra SAS, Knut Morten Johansen, að það komi fyrir að unglingar séu stöðvaðir gruni starfsmenn að ekki sé allt með felldu. Þá sé haft samband við forráðamenn eða lögregluna á flugvellinum. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×