Erlent

Segir Íslendinga heltekna af golfi

Eiður Smári í golfi í Vestmannaeyjum.
Eiður Smári í golfi í Vestmannaeyjum.
Fréttastofan Reuters fjallar um golfáhuga Íslendinga á vefsíðu sinni en þar kemur fram að hér á landi séu flestir golfvellir miðað við höfðatölu í heiminum. Alls eru 65 golfvellir á Íslandi og eru því einn golfvöllur á hverja 5000 íbúa.  

Höfundur greinarinnar er framkvæmdastjóri fréttastofunnar sjálfrar, Paul Ingrassia, sem segir í greininni að hann hafi spilað golf um víða veröld, en aðeins nýlega hér á landi. 

Tíu prósent íslensku þjóðarinnar spilar golf sem er meira en gengur og gerist í bæði Bandaríkjunum og Bretlandi og er golfið þarafleiðandi næst vinsælasta íþrótt þjóðarinnar á eftir fótbolta.

Íslenskir golfvellir hafa það einnig fram yfir aðra velli í heiminum, að hér er bókstaflega hægt að spila allan sólarhringinn yfir sumartímann.

Framkvæmdastjórinn segir í grein sinni að golfið hér á landi hafi þó sína ókosti. Þannig sé kalt á Íslandi og veður válynd.

Völlunum er þó talið til tekna að hér eru næstum engin tré. Á móti komi þó hyldjúpt hraunið. Að auki er ekkert grín ef golfarinn skýtur bolta sínum út í móa, skammt frá varpsvæðum kríanna, Þá þurfa þeir að halda einbeitningunni í miðri loftárás, eins og framkvæmdastjórinn orðar það.

Framkvæmdastjórinn segir svo í lok greinarinnar að það hafi komið honum á óvart að hvergi í heiminum er nokkur þjóð jafn heltekin af þessari ágætu íþrótt, og við Íslendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×