Enski boltinn

Rodgers: Ekki í okkar anda að gefast upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum svekktur með 2-1 tap sinna manna gegn Manchester United í dag.

„Í seinni hálfleik, eftir að við fengum á okkur markið, hefðum við allt eins getað gefist upp. En það er ekki í anda þessa leikmannahóps. Eftir síðustu mínúturnar 35 áttum við líklega eitthvað skilið úr leiknum," sagði Norður-Írinn sem var ekki sáttur við sína menn í fyrri hálfleiknum.

„Við ógnuðum ekki að ráði í fyrri hálfleik. Það var svo sem lítið um færi. Við gáfum United sín færi með slæmum sendingum."

Rodgers skipti Daniel Sturridge inná í hálfleik og átti Englendingurinn fína innkomu.

„Daniel Sturridge var frábær eftir að hann kom inná og við vorum miklu betri í seinni hálfleik," sagði Rodgers sem telur liðið geta lært að leiknum í dag.

„Við lærum af dögum eins og í dag þótt við höfum ekki fengið neitt út úr leiknum."

Rodgers telur stigamun liðanna í deildinni ekki í takt við gæðamun liðanna. Hann segir muna miklu að hafa úr þremur framherjum að spila. Sturridge er nýgenginn í raðir félagsins og Borini er snúinn aftur eftir meiðsli.

„Það munar 24 stigum á Manchester United og okkur í töflunni en það er ekki gæðamunurinn á liðunum. Þetta snýst um breiddina og eftir því sem við stoppum í götin færumst við nær þeim. Vonandi næst það á næstu árum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×