Erlent

Fórnarlömb fjöldamorðanna í Srebrenica í nýjar grafir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ættingjar og vinir syrgja fórnarlömbin.
Ættingjar og vinir syrgja fórnarlömbin. Mynd/AP
Tugir þúsunda manna komu í dag saman  í Bosníu, skammt frá bænum Srebrenica, til að jarðsetja á ný lík 409 fórnarlamba fjöldamorðanna árið 1995.

Minnsta líkið er af nýfæddri stúlku, sem lét lífið þann 11. júlí árið 1995 ásamt föður sínum. Móðir hennar, Hava Muhic, fylgdi í dag til grafar dóttur sinni, sem væri orðin 18 ára hefði hún lifað.

Líkin höfðu upphaflega verið sett í fjöldagrafir. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að bera kennsl á líkamsleifarnar úr fjöldagröfunum, og hefur tekist að bera kennsl á 409 þeirra, til viðbótar þeim 5.657 sem áður hafði tekist að bera kennsl á. Það eru þessi 409 lík sem eru borin til grafar á ný í dag. Enn hefur ekki tekist að finna líkamsleifar 2.306 þeirra, sem saknað er.

Alls voru 8.372 manns myrtir í Srebrenica á fimm dögum þennan júlímánuð. Flestir voru þeir karlkyns, margir á barnsaldri. Meðal þeirra sem jarðsettir voru í dag voru 43 unglingspiltar.

Muhic hefur aldrei vitað hvað kom fyrir hina nýfæddu dóttur sína og vissi ekki hvar jarðneskar leifar hennar voru niðurkomnar fyrr en nýlega. Kona, sem aðstoðaði við fæðinguna, hafði sagt henni að naflastrengurnn hafi vafist um háls barnsins og það væri látið.

Srebrenica var þá sérstakt verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna meðan borgarstyrjöldin í Bosníu stóð sem hæst. Stríðið hófst árið 1992 en lauk ekki fyrr en þremur árum síðar.

Serbneskir hermenn réðust inn í herbúðir friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna og mættu engri mótspyrnu af hálfu hollensku friðargæsluliðanna. Þeir skildu konur frá körlum og myrtu karlana, flestalla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×