Fótbolti

Aðstoðardómari réðst á leikmann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómarar í knattspyrnu sem öðrum íþróttum þurfa oft að láta óréttmæta gagnrýni yfir sig ganga. Stundum hafa leikmenn látið dómarana finna til tevatnsins en yfirleitt tekst dómurum þó að halda sig á mottunni.

Musa Kadyrov, aðstoðardómari frá Tsjetsjeníu missti sig hins vegar þegar flautað var til leiksloka í leik varaliða Amkar Perm og Terek Grozny. Réðst hann á átján ára leikmann Amkar, Ilya Krichmar.

„Dómarinn flautaði til leiksloka og ég ætlaði að ganga í áttina að varamannabekknum þegar einhver, upp úr þurru, hrinti mér í jörðina og byrjaði að sparka í mig og slá til mín," sagði hinn átján ára Krichmar.

Eitthvað hefur táningurinn gert af sér í leiknum þótt erlendir fréttamiðlar hafi lítið fjallað um þann þátt. Í það minnsta reyndu fleiri leikmenn Terek að ráðast á Krichmar sem slapp þó með skrekkinn.

Alexei Spirin, sem áður dæmdi á vegum FIFA, var eftirlitsmaður á vellinum. Hann var að vonum ósáttur með frammistöðu aðstoðardómarans.

„Á löngum ferli hef ég aldrei séð annað eins. Þessi maður á ekki að vera dómari," sagði Spirin sem sparaði ekki stóru orðin.

„Hann skildi ekki reglurnar og þess utan réðst hann á leikmann. Á einkunnaskalanum 1-10 þá fær hann núll í einkunn og ég mun skila sérstakri skýrslu. Hann fær ekki að dæma aftur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×