Erlent

Fórnarlömb Ariel Castros þakka stuðninginn

Mannræninginn Ariel Castro í réttarsalnum.
Mannræninginn Ariel Castro í réttarsalnum. Nordicphotos/AFP
„Fyrst og fremst vil ég að allir viti hve hamingjusöm ég er að vera komin heim til fjölskyldu minnar og vina,” segir Amanda Berry, ein þriggja ungra kvenna sem Ariel Castro hafði í haldi á heimili sínu árum saman.

Konurnar þrjár, þær Amanda Berry, Gina DeJesus og Michelle Knight, sendu frá sér myndband í nótt þar sem þær þakka almenningi fyrir góðan stuðning og fjárhagsaðstoð, sem hefur hjálpað þeim að koma undir sig fótunum á ný.

„Ég hef kannski farið til helvítis og komið til baka, en ég er nógu sterk til að ganga í gegnum helvíti með bros á vör og bera höfuðið hátt,” segir Knight á myndbandinu. 

Castro rændi þeim, einni í senn, á árunum 2002 til 2004. Þær voru þá 14, 16 og 20 ára gamlar. Hann hafði þær í haldi á heimili sínu þar sem hann misþyrmdi þeim allt þar til fyrr á þessu ári, þegar einni þeirra tókst að vekja athygli nágranna síns.

Barry fæddi í prísundinni barn, sem nú er orðið sex ára. Knight varð einnig þunguð, en Castro er sakaður um að hafa barið hana og svelt með þeim afleiðingum að hún missti fóstrið.

Castro, sem er 52 ára fyrrverandi rútubílstjóri, situr nú í fangelsi og á yfir höfði sér ævilangt fangelsi fyrir ákærur í 329 liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×