„Mér finnst það alveg fáránlegt þegar menn ætla að fara að setjast niður og finna framtíðarlausn þá frysti þeir ekki ástandið fyrst og skoði hvaða möguleikar eru fyrir hendi,” segir Ómar. Hann segir afleitt að leggja af minnstu brautina, og skilja völlinn eftir án brautar með hagstæðri legu gagnvart hvössum suðvestan- og norðaustanáttum.
Ómar, sem flogið hefur í 47 ár, gæti verið sá núlifandi flugmanna sem oftast hefur lent á Reykjavíkurflugvelli. Við hittum hann í Skerjafirði við enda litlu flugbrautarinnar, sem borgarstjóri og innanríkisráðherra hafa samið um að lokað verði fyrir áramót og svæðið tekið undir íbúðabyggð.
Hugmynd sem Ómar telur best sameina þau sjónarmið að fá sem mest landrými undir íbúðabyggð en halda samt notagildi vallarins felur í sér að hafa tvær brautir sem liggi sem næst því að vera kross.

Ómar segir að ef austur-vestur brautin yrði nógu löng yrði ný og minni norður-suðurbraut með breyttri legu aldrei notuð nema í svo miklu hvassviðri að flugvélar kæmu hægt að og færu himinbratt upp. Allt flug yfir Kvosinni og Kársnesi myndi hverfa.