Erlent

Forsetinn kominn heim

Jakob Bjarnar skrifar
Morales var fagnað sem hetju þegar hann kom heim.
Morales var fagnað sem hetju þegar hann kom heim.
Evo Morales, forseti Bólivíu, var fagnað sem hetju þegar hann kom heim í gær. Hann vandaði Bandaríkjamönnum, og ráðamönnum í Evrópu, ekki kveðjurnar.

Flugvél Morales forseta varð að lenda í Austurríki að kvöldi þriðjudags, á leið frá Moskvu, vegna þess að frönsk og austurrísk yfirvöld meinuðu flugvél hans að fara um lofthelgi sína vegna gruns bandarísku leyniþjónustunnar um að Edward Snowden uppljóstrari væri um borð.

Ríkisstjórnin tók á móti Morales auk mikils mannfjölda á flugvellinum í La Paz´s. "Þetta er ögrun gagnvart heilli heimsálfu, ekki bara forseta landsins," sagði Morales heim kominn. Hann sagði jafnframt að heimsvaldastefna Bandaríkjamanna lýsti sér í ofríki og kúgun. En, bólivíska þjóðin myndi ekki láta svínbeygja sig né hræða. Aðrir leiðtogar í Suður-Ameríku hafa einnig lýst atvikinu sem óafsakanlegu. Og að þjóðir Evrópu séu taglhnýtingar Bandaríkjamanna.

Frakkar hafa beðið Bólivíumenn opinberlega afsökunar á atvikinu. Bólivía hefur einkum beint spjótum sínum að Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal fyrir að hindra að flugvél forsetans færi um lofthelgi sína. Forseti Frakklands, Francois Hollande, sagði, en hann var þá staddur í Berlín, að hann hefði veitt leyfi um lofthelgina um leið og hann vissi að þetta væri flugvél Morales




Fleiri fréttir

Sjá meira


×