Erlent

Bein þriggja barna Mandela á ný í fjölskyldugrafreit

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Winnie Mandela, fyrrverandi eiginkona Nelsons Mandela, ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Pretoríu í dag.
Winnie Mandela, fyrrverandi eiginkona Nelsons Mandela, ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Pretoríu í dag. Nordicphotos/AFP
Jarðneskar leifar þriggja barna Nelsons Mandela hafa verið flutt aftur í fjölskyldugrafreit í þorpinu Qunu. Einn sonarsona hans, Mandla Mandela, hafði látið fjarlægja þau fyrir tveimur árum og látið grafa þau í þorpinu Mvezo.

Nelson Mandela var fæddur í Mvezo en ólst upp í Qunu. Aðrir úr fjölskyldu hans fóru með málið fyrir dóm og fengu úrskurð um að flytja bæri beinin aftur í upphaflegan grafreit.

Í dómsskjölunum kemur fram að Mandela hafi verið talinn að dauða kominn þann 26. júní síðastliðinn. Honum var haldið á lífi með hjálp tækjabúnaðar, og læknar höfðu ráðlagt hans nánustu að taka búnaðinn úr sambandi.

Daginn eftir heimsótti Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, Mandela og sagði hann þá vera orðinn mun hressari. Zuma heimsótti Mandela einnig í gær, og sagði eftir það að hann væri enn í lífshættu, en ástand hans væri stöðugt.

Mandela hefur nú legið þungt haldinn á sjúkrahúsinu í Pretoríu í nærri mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×