Erlent

Lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð í Úganda

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fyrstu Gay Pride göngu Úganda í ágúst 2012.
Frá fyrstu Gay Pride göngu Úganda í ágúst 2012. Mynd/EPA
Lögþing Úganda hefur samþykkt frumvarp sem herðir refsiramma fyrir samkynhneigð, svo mögulegt verði að setja samkynhneigða í lífstíðarfangelsi. Einnig gæti hver sem tilkynnir ekki samkynhneigða til lögreglunnar farið í fangelsi. Frumvarpið bannar einnig áróður eða réttindabaráttu samkynhneigðra.

Frá þessu er sagt á vef BBC.

Frumvarpið var upprunalega samið árið 2009 og þá mætti það hörðum viðbrögðum frá leiðtogum heimsins. Fréttaritari BBC segir að þingmenn geri sér grein fyrir því að aðrar þjóðir muni mótmæla frumvarpinu og jafnvel gæti Úganda orðið af þróunarhjálp vegna þess. Forseti landsins eigi þó eftir að skrifa undir frumvarpið áður en það verður að lögum.

Upprunalega áttu sum brot, sem ólögráðaeinstaklingar tengdust og ef einstaklingar væru smitaðir af HIV, að vera refsiverð með dauða. Nú er þó búið að skipta dauðarefsingunni út fyrir lífstíðarfangelsi. Einnig samþykkti þingið í gær frumvarp gegn klámi, sem meðal annar bannar ýmiss tónlistarmyndbönd.

Fréttaveita AFP hefur eftir þingmanninum David Bahati, sem lagði frumvarpið fram: „Þetta er mikill sigur fyrir Úganda. Ég er glaður yfir því að þingið hafi kosið gegn illsku.“

„Þar sem við erum guðhrædd þjóð, þá virðum við líf á heildrænan hátt. Það er vegna þeirra gilda sem þingið samþykkti frumvarpið, þrátt fyrir hvað umheiminum finnst.“

Stuðningsmenn frumvarpsins segja það nauðsynlegt til að verja hefðbundin fjölskyldugildi, sem þeir segja vera undir árásum réttindabaráttu hópa samkynhneigðra sem séu undir vestrænum áhrifum.

Breskur eftirlaunaþegi í Úganda á yfir höfði sér tveggja ára fangelsisdóm eftir að hafa verið ákærður fyrir að vera með myndband af samförum samkynhneigðra undir höndum. Þá hafði þjófur fundið myndbandið á stolinni fartölvu og látið lögreglu vita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×