Erlent

Óveður í Norður Evrópu

Á Norður Írlandi gekk sjórinn upp fyrir varnargarða í morgun.
Á Norður Írlandi gekk sjórinn upp fyrir varnargarða í morgun. Mynd/EPA
Þótt frost mælist nú talsvert víða á landinu er veðrið almennt með ágætum. Í Norður Evrópu er sagan á annan veg en mikill snjóstormur hefur gengið yfir Noreg og von er á svipuðu í Svíþjóð.

Í Syðri Þrándalögum kyngdi niður snjónum í gærkvöldi og raskaðist umferð þar víða. Alvarleg slys á fólki hafa þó ekki orðið en bílar hafa víða runnið út fyrir veg og inn í skafla. Og í Svíþjóð búa menn sig nú undir mikla ofankomu og er spáð allt þrjátíu sentimetra jafnföllnum snjó í Svealandi og í Syðra Norrland. Í höfuðborginni Stokkhólmi er síðan búist við um fimmtán sentimetra jafnföllnum snjó. Búist er við að snjókoman standi í dag og á morgun.

Og á Bretlandseyjum geisar nú óveður og hefur þurft að fella niður lestaferðir víð í Skotlandi og tuttugu þúsund heimili eru nú án rafmagns. Rokið kemur á sama tíma og sjávarhæð er mikil vegna stórstreymis þannig að búist er við því að sjórinn gangi yfir varnargarða á austurströnd Englands og valdi miklum flóðum. Viðvaranir um slíkt eru nú í gildi á fjölmörgum stöðum við ströndina. Hvassir vindar blása nú víða á Bretlandseyjum og í morgun þurfti að loka aðallestarstöðinni í Glasgow þegar fjúkandi brak lenti á glerþaki byggingarinnar. Enginn slasaðist þó atganginum. Þá hefur þurft að aflýsa flugferðum víða, til að mynda á flugvellinum í Edinborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×