Erlent

Birtu opið bréf til Obama

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Netfyrirtækin vilja hefta opinbera njósnastarfsemi.
Netfyrirtækin vilja hefta opinbera njósnastarfsemi. Mynd/EPA
Átta af stærstu netfyrirtækjum heims hafa birt yfirlýsingu og opið bréf til Baracks Obama Bandaríkjaforseta, þar sem þau krefjast þess að strangt eftirlit verði haft með njósnastarfsemi stjórnvalda.

Þetta eru fyrirtæki á borð við Google, Facebook og Twitter, sem hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa látið bandarískum leyniþjónustustofnunum í té upplýsingar um viðskiptavini sína.

Í bréfinu segja fyrirtækin að þau hafi vissulega skilning á því að verja þurfi öryggi borgaranna, en segja uppljóstranir nýverið sýna ótvírætt að hafa verði gott taumhald á öllu opinberu eftirliti með borgurunum.

„Jafnvægið í mörgum löndum hefur hnikast of langt í áttina til ríkisvaldsins en frá réttindum einstaklingsins - sem eru bundin í stjórnarskrá okkar,” segir í opna bréfinu.

Með yfirlýsingunni vilja þessi fyrirtæki bregðast við uppljóstrunum Edwards Snowdens, sem sýnt hefur að leyniþjónustur Bandaríkjanna og margra fleiri ríkja hafa safnað saman upplýsingum um símtöl og netsamskipti einstaklinga jafnt sem fyrirtækja víða um heim.

„Bandaríkin ættu að nota þetta tækifæri til þess að hafa forystu um umbætur og koma þessu í rétt horf,” hefur AP fréttastofan eftir Mark Zuckerberg, stofnanda og framkvæmdastjóra Facebook.

Fyrirtækin virðast gera sér ótvíræða grein fyrir því að með samvinnu við stjórnvöld hafi þau brugðist trausti notenda sinna.

Auk Google, Facebook og Twitter standa AOL, Apple, Linkedin, Microsoft og Yahoo að yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×