Erlent

Bréf franska byssumannsins talin geta varpað ljósi á málið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Annað bréfið fannst í bifreið Dekhars en hitt afhenti leigusali hans lögregluyfirvöldum.
Annað bréfið fannst í bifreið Dekhars en hitt afhenti leigusali hans lögregluyfirvöldum. mynd/afp
Lögregla í Frakklandi hefur fundið tvö bréf frá Abdelhakims Dekhar, manninum sem grunaður er um skotárásir í París síðustu daga.

Talið er að bréfin geti varpað ljósi á hvers vegna Dekhar framdi verknaði sína, en hann var handtekinn klukkan sex í gærkvöldi á bílastæði í úthverfi borgarinnar.

Að sögn saksóknara fordæmir Dekhar fjölmiðla og kapítalisma í öðru bréfanna en í hinu fjallar hann um samsæri fasista. Annað bréfið fannst í bifreið Dekhars en hitt afhenti leigusali hans lögregluyfirvöldum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dekhar kemst í kast við lögin en árið 1998 var hann fangelsaður fyrir aðild sína að nokkrum banvænum skotárásum í borginni. Hann hefur enn ekki verið yfirheyrður og segir lögreglan að hann hafi verið í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn. Franskir miðlar segja að mögulega hafi hann reynt að fyrirfara sér.

Mikil leit hafði staðið yfir að manninum. Hann hafði uppi hótanir í anddyri sjónvarpsstöðvarinnar BFMTV síðasta föstudag.

Á mánudag réðst hann inn í skrifstofur dagblaðsins Liberation, hleypti tvisvar af byssu sinni og særði alvarlega 23 ára mann. Tveimur klukkustundum síðar skaut sami maður úr byssu fyrir utan höfuðstöðvar bankans Société Générale. Enginn særðist í þeirri árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×