Erlent

Mikil leit gerð að byssumanni í París

Mynd/AFP
Umfangsmikil leit er nú gerð að manni sem skaut á skrifstofur dagblaðsins Liberation og hleypti einnig af byssunni fyrir framan höfuðstöðvar stórbankans Societe Generale í París. Tuttugu og sjö ára gamall ljósmyndari slasaðist alvarlega í árásinni.

Eftir það fór maðurinn inn í bíl fyrir utan og skipaði ökumanninum að keyra sig að Champs Elysees  breiðgötunni. Hann mun hafa sagt ökumanninum að hann væri vel vopnaður og með handprengjur í fórum sínum. Lögregla telur að um sama mann sé að ræða og braust inn á skrifstofur sjónvarpsstöðvar á föstudag og hóf þar skothríð án þess þó að slasa neinn.

Lögregluvörður er nú við alla helstu fjölmiðla Parísarborgar en ekkert er enn vitað um ástæður árásanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×