Erlent

Föt úr kanínuhári ekki í H&M vegna dýraníðs

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Myndbandið sýnir kanínur hamflettar lifandi.
Myndbandið sýnir kanínur hamflettar lifandi.
Sænska fatakeðjan H&M mun hætta að selja föt búin til úr kanínuhári eftir að dýraverndunarsamtökin PETA birtu myndband sem sýnir kanínur hamflettar lifandi í kínversku kanínubúi.

„Við þurfum að fullvissa okkur um að framleiðendurnir standist okkar kröfur,“ segir talsmaður H&M, en fyrr í vikunni fullyrti fyrirtækið að birgjar þeirra fylgdu öllum reglum og það væri tryggt með reglubundnu eftirliti.

Að sögn PETA heimsóttu útsendarar samtakanna níu kanínubú á fjögurra mánaða tímabili. Í myndbandinu má sjá starfsmenn reyta feld kanínanna af á meðan þær öskra af sársauka. Að því loknu er kanínunum hent aftur inn í búr og hárinu leyft að vaxa á ný. Þetta er gert á 70 til 75 daga fresti að sögn PETA og um 60 prósent dýranna deyja eftir eitt til tvö ár.

Þá hefur sænska Lindex-keðjan einnig ákveðið að selja ekki föt úr kanínuhári, þar sem ekki sé hægt að tryggja mannúðlega meðferð dýranna.

Myndbandið frá PETA má sjá hér fyrir neðan, en rétt er að vara við því að það gæti vakið óhug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×