Erlent

Rúmlega helmingur flóttamanna frá Sýrlandi eru börn

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessir strákar leika sér með plastbyssur í flótamannabúðum í Líbanon.
Þessir strákar leika sér með plastbyssur í flótamannabúðum í Líbanon. Mynd/EPA
Stríðið í Sýrlandi skapar kynslóð sálfræðilega skaddaðra barna, samkvæmt nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunnum sem birt var í gær.

Meira en helmingur alls 2.2 milljóna sýrlenskra flóttamanna eru börn samkvæmt skýrslunni og þrátt fyrir að vera fyrir utan stríðssvæðið búa þau við hættuleg skilyrði.

Hætta steðjar að líkamlegu ástandi þeirra sem og sálfræðilegu, samkvæmt höfundum skýrslunnar. Yfir 60% barnanna eru í Líbanon og Jórdaníu. Frá  þessu er sagt á vef BBC.

Samkvæmt skýrslunni eru 385,007 sýrlensk börn flóttamenn í Líbanon, þar af eru 2,440 börn viðskila við fjölskyldu sína og 80% þeirra eru ekki í skóla. Í Jórdan eru 291.238 börn sem flúið hafa frá Sýrlandi, 1.320 þeirra eru ekki með fjölskyldum sínum og 56% þeirra eru ekki í skóla. Í Tyrklandi eru 294.304 börn og einnig er mikill fjöldi í Írak og Egyptalandi.

Mynd/EPA
Við fjögurra mánaða rannsóknir komust starfsmenn SÞ að því að sýrlensk börn á skólaaldri sem flúið hafi til nágrannalanda fái sífellt minni menntun og neyðist til þess að vinna til að halda lífi. Allt að 300.000 börn sem halda til í Líbanon og Jórdaníu munu hafa flosnað úr námi í lok þessa árs.

Mikill fjöldi ungabarna, eða 77% af þeim 781 sem voru skoðuð í Líbanon, hafa ekkert fæðingarvottorð og eru því ríkisfangslaus.

Í myndbandinu hér að neðan sést hvernig Abdallah, sem er tólf ára, vinnur fyrir sér og fjölskyldu sinni í Za´atari flóttabúðunum í Jórdaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×