Erlent

Gríska lögreglan rýmir byggingu gríska ríkisútvarpsins

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Óeirðalögreglan umkringir mótmælendur fyrir utan fyrrverandi höfuðstöðvar ríkisútvarpsins í Aþenu.
Óeirðalögreglan umkringir mótmælendur fyrir utan fyrrverandi höfuðstöðvar ríkisútvarpsins í Aþenu. Mynd/AP
Gríska óeirðalögreglan rýmdi eldsnemma í morgun höfuðstöðvar gríska ríkisútvarpsins ERT í Aþenu, en starfsemi stöðvarinnar var lögð niður í sumar.

Fyrrverandi starfsmenn stöðvarinnar lögðu húsið undir sig í júní ásamt velunnurum sínum ýmsum. Þeir höfðu haldið áfram að senda út efni á netinu, þar á meðal fréttir og heimildarþætti.

Nokkrir tugir manna voru í húsinu þegar lögreglan réðst til inngöngu, en nokkruð hundruð manna komu síðan á staðinn til að mótmæla aðgerðum lögreglunnar.

Fjórir voru handteknir, en látnir lausir fljótlega aftur. 

Stjórnvöld lögðu niður ríkisútvarpið allskyndilega þann 11. júní í sumar og ráku á einu bretti allt starfsfólkið, 2.700 manns. 

Þetta var sagt nauðsynlegur liður í sparnaðaraðgerðum ríkisins, sem hefur átt í miklu basli við að ná saman endum vegna sligandi skuldakreppu síðustu misserin.

Enn eru fyrrverandi starfsmenn ERT að senda út efni á netinu á nokkrum stöðum í Grikklandi, þar sem útvarpið var með smærri starfsstöðvar.

Ríkið stofnaði aðra en töluvert minni útvarpsstöð, EDT, sem er með höfuðstöðvar í öðru húsnæði í Aþenu, þar sem ERT hafði einnig verið með starfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×