Erlent

Bréf til Japanskeisara veldur uppnámi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Keisaranum fengið bréf.
Keisaranum fengið bréf. Mynd/AP
Í síðustu viku gerðist ungur japanskur þingmaður svo djarfur að afhenda keisara landsins bréf. Þetta er einsdæmi í sögu Japans og þykir reyndar gjörsamlega óviðeigandi samkvæmt þeim ströngu formreglum sem gilda um keisarafjölskylduna.

Þingmaðurinn, sem sagður er harla kappsfullur í starfi sínu, ákvað að grípa til þessa ráðs til að vekja athygli á hættunni sem enn stafar af hinu ónýta kjarnorkuveri í Fukushima.

Myndbandsupptaka af atburðinum hefur verið sýnd aftur og aftur í japönsku sjónvarpi, og hefur því vissulega vakið athygli en ekki síður hneykslun víða um land.

Þingmaðurinn, sem heitir Taro Yamamoto, var orðinn þekktur leikari áður en hann settist á þing eftir kosningar nú í sumar.

Hann notaði tækifærið þegar Akihito keisari og Michiko keisaraynja héldu sína árlegu garðveislu í keisarahöllinni í síðustu viku.

Keisarinn tapaði ekki ró sinni þegar hann tók við bréfinu úr hendi þingmannsins, en keisaraynjan varð hálf hvumsa við og reyndi að fá mann sinn til þess að sinna þessu ekki frekar. Yfirþjónn keisarans tók síðan bréfið snarlega úr hendi keisarans um leið og hann sneri sér við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×