Erlent

Utanríkisráðherra Frakka segir njósnir NSA "óásættanlegar"

Þorgils Jónsson skrifar
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, segir njósnir NSA í Frakklandi vera óásættanlegar.
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, segir njósnir NSA í Frakklandi vera óásættanlegar. NordicPhotos/AFP
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, hefur kallað bandaríska sendiherrann í Frakklandi til fundar vegna meintra njósna.

Frétt í Le Monde í morgun leiðir í ljós að bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin, NSA, safnaði saman gögnum um fleiri en 70 milljónir símtala í Frakklandi á mánaðar tímabili um og eftir síðustu áramót.

Fabius segist munu krefjast útskýringa á þessum aðgerðum sem hann segir "gjörsamlega óásættanlegar".

Frétt Le Monde byggir á gögnum frá uppljóstraranum Edward Snowden. Þar kemur fram að þegar hringt var úr ákveðnum númerum geymdust gögn um þau sjálfkrafa. Þá geymdi kerfið líka textaskilaboð sem innihéldu ákveðin lykilorð.

Njósnaaðgerðir bandarískra stofnanna hafa valdið mikilli úlfúð þar sem slíkt hefur jafnvel viðgengist í löndum eins og Bretlandi, Þýskalandi og nú Frakklandi.

Meðal annarra landa sem hafa gagnrýnt þetta framferði eru Brasilía og Mexíkó, en í þeim tilfellum kom einnig í ljós að NSA hafði fylgst með samskiptum frá skrifstofum forseta ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×