Erlent

Gaf í skyn að börnin bæru sök

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jozef Michalik erkibiskup.
Jozef Michalik erkibiskup. Mynd/AP
Józef Michalik, erkibiskup kaþólsku kirkjunnar í Póllandi, hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ummæli sínu þar sem hann gaf í skyn að fórnarlömb barnaníðs presta ættu stundum sjálf sökina.

Michalik tjáði sig við fjölmiðla fyrr í þessum mánuði um pólska presta sem hafa orðið uppvísir að barnaníði, og sagði þá að barn, sem kemur úr erfiðum fjölskylduaðstæðum, „leiti eftir nánd við aðra og geti tapað sér og geti líka flækt mótaðilann í það.”

Þessi ummæli vöktu strax hörð viðbrögð, en Michalik brást við samdægurs, baðst afsökunar og sagðist hafa verið misskilinn. Hann hafi engan veginn ætlað að gefa í skyn að barnaníð geti verið börnunum sjálfum að kenna.

Það dugði þó ekki til. Stjórnmálamenn jafnt sem almenningur hafa látið undrun og reiði í ljós og umræðan er ekkert að dvína, nú  hálfum mánuði síðar.

Fjölmiðlar hafa rifjað upp að Michalik hafi á sínum tíma komið presti til varnar sem árið 2004 hlaut dóm fyrir barnaníð.

„Orð Michaliks erkibiskups vekja með okkur ótta og viðbjóð,” segir Ewa Orlowska, ein þeirra sem varð fyrir barðinu á þeim presti.

Frá árinu 2001 hafa 27 pólskir prestar verið ákærðir fyrir barnaníð. Flestir fengu þeir skilorðsbundinn dóm, sem hefur verið túlkað sem svo að dómskerfið hneigist til að taka mildum höndum á kaþólsku kirkjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×