Innlent

Segir brotið á mannréttindum heyrnalausra

Hrund Þórsdóttir skrifar
Prestur heyrnarlausra segir brotið á mannréttindum þeirra, fái þeir ekki túlkaþjónustu í daglegu lífi. Peningar sem ætlaðir voru til þjónustunnar á árinu eru búnir og heyrnarlausir hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi eru fjármunir sem ætlaðir voru til túlkaþjónustu í daglegu lífi á þessu ári búnir og því útlit fyrir að heyrnarlausir fái ekki þessa nauðsynlegu þjónustu fyrr en á nýju ári. Hægt er að horfa á fréttina í spilaranum hér fyrir ofan. Hún hefst á mínútu 07:30.

Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur heyrnarlausra, segir þetta alvarlegt mál.

„Það er verið að brjóta mannréttindi þessa fólks. Það horfir svoleiðis við mér að þarna er verið að mismuna fólki sem notar íslenskt táknmál sem sitt móðurmál sem er lögum samkvæmt þeirra móðurmál og nú er klárlega verið að brjóta á þeim, samkvæmt lögum.“

Brynja segir skort á túlkaþjónustu þýða mikla einangrun fyrir heyrnarlausa, enda séu túlkarnir lykill þeirra að samfélaginu. Skjólstæðingar Brynju hafa leitað til hennar vegna málsins og lýst áhyggjum sínum af stöðunni.

„Um leið og er lokað fyrir þessa túlkaþjónustu vegna þess að það er ekki til fjármagn þá auðvitað fer þetta að hafa áhrif. Þetta fólk hefur skráð sig á námskeið sem það fær ekki núna túlk á og hefur jafnvel átt að vera á námskeiðum og annað í vinnu og fær ekki túlk þangað,“ segir Brynja.

Brynja segir mikilvægt að standa vörð um réttindi þessa hóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×