Fótbolti

Baggið að bögga Lagerbäck í Bern

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu, Svíinn Lars Lagerbäck, sat fyrir svörum á blaðamannafundi liðsins í Bern í dag. Munntóbaksnotkun hans vakti athygli.

Íslenska landsliðið er við æfingar í höfuðborg Sviss en liðið mætir heimamönnum í undankeppni heimsmeistaramótsins á föstudagskvöld. Í viðtali sem Henry Birgir Gunnarsson tók og birt var í kvöldfréttum Stöðvar 2 var greinilegt að sá sænski var með tóbak í efri vör. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Knattspyrnusamband Íslands hefur blásið í herlúðra gegn tóbaksnotkun knattspyrnuiðkenda og er skemmst að minnast þriggja ára gamallar herferðar sambandsins. Þá tók KSÍ höndum saman með Jafningjafræðslunni og Lýðheilsustöð undir slagorðinu „Bagg er bögg“.

Lagerbäck sagðist í viðtali við Fréttablaðið haustið 2011 hafa notað munntóbak á sínum tíma. Hann hefði byrjað 15 ára gamall en hætt því fyrir heimsmeistaramótið árið 2010. „Ég tók því ansi lengi í vörina og löngunin hverfur ekki. Ég á það til að fá mér í vörina ef einhver vinur minn býður mér upp á það en ég nota ekki munntóbak að staðaldri," sagði Lagerbäck við það tilefni. Hann hafði ekki heyrt af herferð KSÍ fyrr en í umræddu viðtali fyrir tæpum tveimur árum.

„Það er þá gott að ég er hættur fyrst KSÍ er í þessu átaki.“

Ólafur Jóhannesson, forveri Svíans í starfi, sást á sínum tíma taka í nefið á meðan hann stýrði íslenska landsliðinu í leik á Laugardalsvelli. Baðst hann afsökunar og lofaði því að slíkt myndi ekki endurtaka sig.

Í lokaleik landsliðsins undir hans stjórn í Portúgal braut Ólafur hins vegar loforð sitt þegar til hans sást með tóbakshornið á varamannabekknum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.