Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Stjarnan 0-2

Árni Jóhannsson í Keflavík skrifar
Hörður Sveinsson fór illa með færin í dag.
Hörður Sveinsson fór illa með færin í dag.
Ólafur Karl Finsen tryggði Stjörnunni sigur á Keflavík í annað skipti í sumar er liðin mættust suður með sjó í kvöld. Ólafur Karl skoraði eina mark leiksins er liðin mættust í Garðabænum fyrr í sumar.

Fyrri hálfleikur fór fjörlega af stað og áttu heimamenn tvö fín færi á fyrstu sjö mínútum leiksins en höfðu ekki heppnina með sér. Leikurinn hélt áfram að vera fjörlegur og einkenndist hann af mikilli baráttu en Keflvíkingar voru öllu beittari en Ingvar Jónsson var vel vakandi í marki Stjörnumanna og kom þeim í tvígang til bjargar þegar Hörður Sveinsson átti skot að marki í markteignum.

Stjörnumenn áttu líka sínar sóknir en áttu í vandræðum með að hitta á markið úr fínum skotfærum. Loksins þegar gestirnir hittu á markið þá small boltinn í stönginni frá Ólafi Karli Finsen á 33. mínútu.

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikurinn hafi verið stórskemmtilegur þá vantaði mörkin og liðin gengu með jafnan hlut til búningsherbergja í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst og sáu menn að gæðin voru ekki þau sömu og þau höfðu verið í fyrri hálfleiknum. Mikil barátta var um stöður á vellinum og klikkuðu margar sendingar hjá báðum liðum, sem orsakaði það að opin færi voru mjög fá og einu verkefni markvarða liðanna var að grípa inn í sendingar eða taka útspörk frá mörkum sínum.

Heimamenn hresstust örlítið þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og voru líklegri til að skora mark en það voru gestirnir úr Garðabænum sem að tryggðu sér stigin með tveimur mörkum á seinustu mínútum leiksins. Þar var að verki Ólafur Karl Finsen í bæði skiptin og voru mörkin nokkuð lagleg.

Fyrra markið skoraði hann þega átta mínútur voru eftir. Ólafur fékk boltann um 25 metrum frá marki og lét vaða með vinstri fæti. Boltinn rauk áfram með jörðinni og endaði í bláhorninu vinstra megin við markvörð Keflvíkinga sem átti ekki möguleika á að verja. Seinna markið var ansi klókt.

Kennie Chopart átti þá lága sendingu af hægri kanti inn í teig þar sem bæði Garðar Jóhannsson og Halldór Orri Björnsson stigu yfir boltann á leið sinni til Ólafs, sem þakkaði fyrir sig og sendi boltann í markið af markteignum.

Eftir það fjaraði leikurinn út og Stjörnumenn fögnuðu stigunum innilega í lok leiksin enda ennþá í færi um Íslandsmeistaratitilinn. Keflvíkingar hinsvegar mega vera fúlir enda gerðu liðin í kringum þá í botnbaráttunni jafntefli og því var möguleiki fyrir Keflvíkinga að bæta stöðu sína fyrir lokaátökin.

Þorkell Máni: Færanýtingin kostaði okkur leikinn

Aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, Þorkell Máni Pétursson, var að vonum ósáttur með úrslitin í leik Keflavíkur og Stjörnunnar.

„Mér líður bara mjög illa, það eru engar blendnar tilfinningar, það var bara mjög leiðinlegt að horfa upp á þetta.“

Honum fannst sínir menn ekki eiga eitthvað skilið úr þessum, þrátt fyrir að hafa sýnt fína takta.

„Fótboltaleikir fara alltaf eins og þeir fara og á meðan við erum ekki að nýta færin okkar þá eigum við ekkert skilið úr leikjunum. Við vorum mjög góðir í þessum leik og það var Suðurnesjamaðurinn Ingvar Jónsson sem stóð þarna í markinu hjá Stjörnunni sem umfram aðra skilaði þessum stigum. Það var ekkert sem kom okkur á óvart við leik Stjörnunnar annað en að Ólafur Karl hafi verið í holunni.“

Máni sagði að Keflvíkingar þyrftu að skora fleiri mörk heldur en andstæðingurinn, þegar hann var spurður um hvað Keflvíkingar þyrftu að bæta í sínum leik og sagði að þá yrðu þeir í mjög góðum málum.

Um spilamennsku Keflvíkinga sagði Máni: „Við erum alveg á uppleið þannig séð en í þessum leik hefðum við átt að gera betur. Við getum tekið það að við höfum verið góðir og staðið í Stjörnumönnum og hefðum getað nýtt færin en það telur bara ekkert. Við þurfum að hala inn stig og við eigum ekki að vera að tapa hérna á heimavelli“, sagði hundfúll aðstoðarþjálfari Keflvíkinga.

Logi Ólafsson: Mjög nauðsynlegur sigur

„Þetta var mjög nauðsynlegt fyrir okkur eftir að hafa misstigið okkur á móti Breiðablik og oft höfum við sýnt af okkur slen í seinni hálfleik í undanförnum leikjum en við bættum fyrir það í dag. Við vorum hinsvegar frekar slappir í fyrri hálfleik, þeir sköpuðu mörg ágætis færi og Ingvar varði vel og við höfum sjálfir verið að lenda í því að klikka á dauðafærum en það var gott að sleppa við það og síðast en ekki síst að tryggja okkur stigin í lokin 2-0“, sagði ánægður Logi Ólafsson, þjálfari Stjörnumanna, eftir sigurinn á Keflvíkingum í kvöld.

Aðspurður hvort hann taldi að markvörður Stjörnunnar hafi haldið sínum leikmönnum á lífi í fyrri hálfleik, sagði Logi.

„Já hann gerði það, hann á að verja skotin til þess er hann þarna og þetta voru frábærar vörslur hjá honum og Keflvíkingarnir voru virkilega góðir í fyrri hálfleik.“

Logi bætti við um fyrri hálfleikinn, „Við hleyptum þeim of mikið inn í leikinn og þeir fengu að gera það sem þeir höfðu lagt upp með og við gáfum þeim alltof mikinn tíma, þannig sköuðu þeir sér sín færi og við vorum óþolinmóðir og héldum boltanum illa. Við vorum dálítið gjarnir á að reyna úrslitasendinguna sem á að gefa mark sem kom aldrei.“

Logi var mjög ánægður með Ólaf Karl Finsen sem skoraði bæði mörk Stjörnunnar í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með hann. Hann hefur verið feykilega öflugur í allt sumar, hann datt þarna aðeins niður á svipuðum tíma og liðið en Ólafur getur leyst holustöðuna mjög vel og er náttúrulega hörkuskotmaður og sýndi það í dag.“

Logi var spurður að því hvernig hann mæti möguleika liðsins restina af Íslandsmótinu.

„Ég bara veit það ekki, ég var að heyra einhverjar tölur úr hinum leikjunum og kannski hjálpar það okkur eitthvað. Við höfum nú samt haft þann sið, þótt ykkur finnist hann ekki mjög skemmtilegur, að taka einn leik fyrir í einu og það ætlum við að gera. Það er langt frí framundan, við ætlum að njóta þess að hafa unnið þennan leik og svo ætlum við að vanda okkur í fríinu.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×