Erlent

Tugir grófust undir aurskriðu í Kína

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Brúin sem hrundi í Kína í gær. Að minnsta kosti tólf manns er saknað þar
Brúin sem hrundi í Kína í gær. Að minnsta kosti tólf manns er saknað þar Mynd/AP
Allt að 40 manns grófust undir aurskriðu bænum Zhongxing í Sichuan-héraði í Kína í morgun. Meira en 100 björgunarmanns eru mættir til að leita að fólki, sem kynni að vera á lífi.

Mikið úrhelli hefur verið á þessum slóðum í vestanverðu Kína undanfarna daga, með tíðum skriðuföllum og miklum flóðum. Sums staðar hefur fólk ekki kynnst jafn miklum flóðum í meira en hálfa öld.

Í gær hrundi brú í Jiangyou-sýslu, sem einnig er í Sichuan-héraði með þeim afleiðingum að sex bifreiðar steyptust í ána, og er að minnsta kosti tólf manns enn saknað.

Þá skolaði burt heilli verksmiðju í flóðunum og tókst með naumindum að bjarga einum starfsmanni þar á síðustu stundu.

Flóð eru tíð í fjallahéruðunum í þessum hluta Kína. Á ári hverju farast þar hundruð manna. Ástandið hefur sums staðar versnað vegna skógareyðingar.

Flóðin núna eru á svipuðum slóðum og jarðskjálftinn mikli varð fyrir fimm árum. Sá skjálfti kostaði 90 þúsund manns lífið og heill bær lagðist í eyði. Rústirnar eru nú notaðar sem safn til minningar um atburðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×