Erlent

Rússar saka sýrlenska uppreisnarmenn um að nota efnavopn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Læknar huga að manni á sjúkrahúsi í Aleppo í mars.
Læknar huga að manni á sjúkrahúsi í Aleppo í mars. Nordicphotos/AFP
Vítalí Tsjúrkín, sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, fullyrðir að sýrlenskir uppreisnarmenn hafi notað taugagasið sarín í árás nálægt borginni Aleppo í mars. 

Árásin kostaði 26 manns lífið, þar af sextán hermenn sýrlensku stjórnarinnar og 86 manns að auki særðust.

Uppreisnarmenn hafa sakað stjórnarherinn um þessa árás. Hvorki Bretar né Bandaríkjamenn segjast hafa séð neitt sem sanni að uppreisnarmennirnir beri ábyrgð á henni.

Tsjúrkín afhenti hins vegar Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, 80 blaðsíðna skýrslu í gær og sagði að sýrlensk stjórnvöld hafi beðið Rússa um að rannsaka atvikið.

Efnavopnasérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna höfðu þá reynt að komast inn í landið til að rannsaka árásina, en fengu ekki heimild til þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×