Erlent

"Auðveldara" að láta drepa manninn sinn en skilja við hann

Jóhannes Stefánsson skrifar
Konan brosir og hlær þegar hún segir frá því að hún vilji láta ráða eiginmann sinn af dögum
Konan brosir og hlær þegar hún segir frá því að hún vilji láta ráða eiginmann sinn af dögum NEWS.COM.AU
Lögreglan í Michigan náði ótrúlegu myndbandi af því þar sem Julia Charlene segir við lögreglumann í dulargervi leigumorðingja að hún vilji láta drepa manninn sinn því það sé "auðveldara en að skilja við hann." Julia Charlene Merfeld er 20 ára íbúi í Michigan í Bandaríkjunum, en hún hefur játað fyrir rétti að hafa ætlað sér að láta myrða eiginmann sinn sem er 27 ára.

Leynilögreglumaður vestanhafs tók á laun upp myndband eftir að hún hafði sett sig í samband við hann, en hún taldi hann vera leigumorðingja. Í myndbandinu sést þar sem hún útskýrir fyrir honum hvers vegna hún sé staðráðin í því að láta myrða eiginmanninn, en hún vil ekki að fjölskyldan sín dæmi sig fyrir skilnaðinn. Þá segist hún ekki vilja særa hann með skilnaðinum og telji því betra að ráða hann af lífi. Morðið sé því betri kostur en skilnaður, enda sé það „auðveldara en að skilja."

Hún segir einnig í myndbandinu að hún geti ekki greitt leigumorðingjanum fyrr en eftir morðið enda muni laun hans koma úr líftryggingu eiginmannsins.

Þá sést þar sem lögreglumaðurinn lýsir því fyrir henni hvernig morðið muni fara fram og hvort hún hafi skoðanir á hvernig það verði gert. Hún lætur hann þá fá skissu af húsinu og næsta nágrenni og mynd af eiginmanninum. Að endingu næst samkomulag um það að hann skjóti manninn í andlitið og tvisvar í hjartað. Hún biður morðingjann þó um að reyna að drepa hann utandyra, enda gæti húsið að öðrum kosti orðið skítugt.

Þá er hún margspurð að því hvort hún sé viss hvort hún vilji að maðurinn sinn deyji. Á einum stað í myndbandinu sést þar sem hún spyr „er þetta kannski slæm hugmynd?" og hlær svo við. Lögreglumaðurinn segir þá „Ég er tilbúinn til að gera þetta, hverjar sem þínar ástæður eru. Ég vil bara peninginn." Skömmu síðar takast þau svo í hendur og konan fer svo úr bílnum

Myndskeiðið var spilað fyrir dómara í gær. Dómur í málinu mun falla þann 30. júlí.

Þetta kemur fram á vef News.com.au.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×